Rósa Dögg Ægisdóttir
Árið 2020 var heldur betur viðburðaríkt! Okkur langar að fara yfir og deila með ykkur helstu verkefnum og áföngum sem við náðum á árinu.
Við hlutum viðurkenninguna fyrirtæki ársins 2020, og það með hæstu einkunn! Við erum ótrúlega stolt af þessari viðurkenningu en ekkert af þessu væri mögulegt án okkar frábæra og metnaðarfulla starfsfólki sem gera alla vinnudaga betri!
Reon fær hæstu einkunn lítilla fyrirtækja fyrir stjórnun, vinnuskilyrði, sjálfstæði í starfi, ímynd og jafnrétti en þar er Rekstrarfélag Kringlunnar með sömu einkunn. Við lofum að halda áfram að gera góða hluti í þessum málum! Takk fyrir okkur VR!
Reon hóf samstarf með Krónunni á þróun snjallverslunar um mitt ár 2019. Snjallverslun gerir notendum kleyft að versla matvöru í gegnum app og fá heimsent. Þegar heimsfaraldurinn skall á í mars vorum við komin ágætlega á veg með snjallverslunina, sem samanstendur af mörgum kerfum, en áætlað var að gefa hana út um haustið. Mikill vilji var hjá öllum teymum snjallverslunar og Krónunnar að reyna að koma snjallverslun út sem allra fyrst svo hægt væri að koma til móts við alla þá sem sitja þurftu heima í sóttkví eða einangrun og minnka álag á búðunum. Svo það var allt sett á fulla ferð! Á 2 vikum komum við út útgáfu sem við gáfum framlínufólki aðgang að og stuttu seinna gáfum við appið út. Eftir útgáfu héldum við svo áfram að gefa út betrumbætur og nýja virkni út allt árið og erum enn að!
N1 fékk einnig teymi frá Reon til að vinna með sér nýja vefverslun. Vefverslun N1 þjónustar fyrirtæki við kaup á ýmsum vörum svo sem rekstrarvörum, bílavörum og vinnufatnaði. Framleidd var ýmis virkni í vefverslunina til að auðvelda fyrirtækjum skipulagningu kaupa, endurtekin kaup, aðgangsstýringu innan stórra fyrirtækja. Teymið lagði áherslu á örugga skráningu í viðskipti í vefverslun og góða notendaupplifun við að færa viðskiptin yfir á netið. Vefverslun N1 fór í notkun í beta útgáfu hjá nokkrum viðskiptavinum í lok árs 2020 og er stefnan á að vinna betrumbætur fram að útgáfu í byrjun árs 2021.
Reon og Vörður hafa verið í stafrænu samstarfi síðan í byrjun árs 2019 sem hluti af stefnu Varðar að bjóða upp á bestu mögulegu þjónustu við viðskiptavini á stafrænum miðlum. Eftir frábæra vegferð með mínar síður og rafrænan ráðgjafa árið 2019 var tjónaferill Varðar tekinn fyrir. Markmiðið var að auka upplifun viðskiptavina á vefnum sem lenda í tjóna. Teymið setti markmiðin hátt og vildi auka upplifun við tilkynningu á tjón, minnka handavinnu starfsmanna sem vinna tjónin og þannig flýta fyrir afgreiðslu tjóna. Einnig var lagt mikið upp úr því að upplýsa viðskiptavin um stöðu og framgang mála.
Eftir útgáfu á stafrænum tjónaferil fórum við að vinna að nýjum vef Varðar. Búið var að taka yfirhalningu á mínum síðum og var hugmyndin að koma vefnum yfir í sömu tækni ásamt því að gera hann notendavænni og yfirfara allt efni til að gera það skýrara fyrir hinn almenna borgara. Teymið setti upp stafrænt hönnunarkerfi og hauslaust vefumsjónarkerfi þar sem starfsmenn fengu fullt vald yfir öllu efni og uppsetningu en samt sem áður með nákvæmlega því útliti sem við vildum. Vefurinn var gefinn út í september með miklum fagnaðarlátum og sér Vörður nú að mestu leyti um viðhald og þróun á honum.
Á tímum Covid lá verulega á að geta aðstoðað viðskiptavini betur í gegnum netið. Markmiðið með spjallmenni fyrir Arion banka var að geta komið eins hratt og mögulegt væri út með spjallmenni sem gæti aðstoðað við stóran hluta af fyrirspurnum sem komu inn til þjónustufulltrúa, sérstaklega Covid tengdar fyrirspurnir, og leitt viðskiptavini áfram á rétta staði. Við tengdum einnig spjallmennið við notendavænt svarborð fyrir þjónustufulltrúa þannig að auðvelt væri að aðstoða þá sem þurftu frekari hjálp en spjallmennið gat sjálft veitt.
Í samskiptum við þjónustufulltrúa var einnig mikilvægt að geta aðstoðað viðskiptavini við meira en bara almennar fyrirspurnir. Við útfærðum því rafræna auðkenningu í spjallmenninu og svarborðinu svo þjónustufulltrúar gætu verið fullvissir um hvaða einstakling eða fyrirtæki þeir væru að þjónusta og að auðkenningin væri örugg.