24. júlí 2022 · 1 mín lestur

Nýr framkvæmdastjóri Reon

Rósa Dögg framkvæmdastjóri Reon

Rósa Dögg Ægisdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Reon ehf.

Reon var stofnað 2011 og sérhæfir sig í þróun stafrænna lausna og nýsköpun. Hjá fyrirtækinu starfa nú 25 sérfræðingar með þverfaglega þekkingu á hugbúnaði, tækni- og viðskiptaþróun. 

Rósa Dögg hefur síðastliðin fjögur ár starfað sem þróunarstjóri Reon og setið í framkvæmdastjórn félagsins undanfarin þrjú ár. í starfi sínu hefur hún stýrt stafrænum verkefnum fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, meðal annars fyrir Festi, Vörð og Byko auk opinberra stofnana. Hún hefur sömuleiðis sinnt vörustýringu fyrir eigin vörur Reon, til dæmis snjallforritið Team Health og áskriftarkerfið Vefáskrift. Þá situr hún einnig í stjórn Reon Ventures sem fjárfestir í og aðstoðar sprotafyrirtæki á hugmyndastigi. Hún mun í nýju starfi leiða stefnumótun fyrirtækisins, skerpa á framtíðarsýn þess og fylgja nýjum og eldri viðskiptavinum í ferlum Reon.

Rósa er með B.S. gráðu í Iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún er í sambúð með Ásþóri Tryggva Steinþórssyni verkfræðingi og saman eiga þau einn son.

Ég hlakka mikið til að takast á við þetta spennandi og krefjandi verkefni. Starfsemi Reon hefur þróast mikið á liðnum árum og ég hef verið svo heppin að hafa spilað stórt hlutverk í þeirri vinnu ásamt Elvari. Ég bý að þeirri reynslu og mun byggja á henni. Framundan eru spennandi tímar enda er mikil eftirspurn á markaði fyrir stafrænar lausnir. Við höfum sett okkur skýr markmið fyrir komandi ár og með góðu starfsfólki munum við fylgja þeim markmiðum eftir.
Rósa Dögg Ægisdóttir

Framkvæmdastjóri Reon

Elvar Örn Þormar, fráfarandi framkvæmdastjóri og einn stofnenda Reon mun í framhaldinu leiða fjárfestingastarfsemi fyrirtækisins.

Rósa Dögg hefur gegnt lykilhlutverki í vexti Reon á undanförnum árum, hún er framúrskarandi leiðtogi fyrir þróunarteymin okkar og afrakstur af framlagi hennar hefur hvort í senn bætt hag viðskiptavina okkar og gert Reon að einstökum vinnustað. Samhliða því sem hún tekur við starfi framkvæmdastjóra hlakka ég til að takast á við ný verkefni og sinna þróun Reon og dótturfélaga til lengri tíma
Elvar Thormar

Viðskiptaþróun

Hægt að lesa fréttina á vísi; https://www.visir.is/g/20212189836d